Kolfinna Kristínardóttir
Tælenskt karrý

Þar sem seinnihluti september einkennist af því að reyna að koma barni í heimi þá eldaði ég þetta sterka karrý - það er að sjálfsögðu hægt að ráða hversu sterkt það er en ég bætti helling af þurrkuðum chilli út á eftir eldun.
Því lengur sem karrýið er eldað því betra - mér finnst það t.d. alltaf betra daginn eftir. Eins og með allar uppskriftir er um að gera að nýta það sem er til á heimilinu, nota það grænmeti sem er til og ekki fara 100% eftir uppskriftinni. Til dæmis er gott að nota kjúkling eða rækjur sem prótein en auðvitað líka gott sem grænmetisréttur.
Gott að bera karrýið fram með blómkálsgrjónum fyrir þá sem eru ketó og ketó naan brauði. Fyrir ykkur sem eruð ekki ketó mæli ég með venjulegum hrísgrjónum og naan brauði.
Innihald:
1-2 matskeiðar olía til steikingar
3-4 hvítlauksgeirar
1/2 laukur
1/2 brokkóli haus
1 ferskur chilli
4-5 matskeiðar rautt curry paste (passið að kaupa sykurlaust)
1 matskeið soja sós/liquid aminos eða fiski sósa
250 ml kjúklingasoð
Smá sæta eftir smekk, t.d. steviu dropar
1 dós kókósmjólk
Kjúklingur eða rækjur (ath ef þið notið rækjur er þeim bætt út í rétt áður en karrýið er borið fram, annars verða þær seigar og ofeldaðar).
Kóríander eftir smekk
Lime
Aðferð:
Skerið grænmetið smátt og steikið á pönnu upp úr olíu. Blandið curry paste-inu við ásamt kókósmjólkinni og restinni af sósunum og sætunni. Eldið svo kjötið eftir því hvernig prótein þið eruð með, kjúklingur steiktur á pönnu og síðan bætt út í sósuna. Rækjurnar settar út í rétt áður en karrýið er borið fram, passið að sjóða aldrei rækjur. Látið svo allt saman malla í dágóðan tíma og smakkið reglulega, bætið við soja sósu/liquid aminos/fiski sósu fyrir meiri seltu, steviu eða annarri gervisætu. Að lokum mæli ég með að strá ferskum kóríander yfir og kreista lime út á.
