• Kolfinna Kristínardóttir

Súkkulaði-möndlukökur

Ég er mikið jólabarn og finnst fátt skemmtilegra en að baka smákökur. Þessar kökur eru mjög einfaldar og fljótlegar, hægt er að skreyta þær með allsskonar hnetum, súkkulaði og fleira. Þessi uppskrift varð til eftir misheppnaða tilraun að gera súkkulaði makkarónur. Þær lyftu sér ekki rétt og deigið varð alltof þykkt sem makkarónu botn. Ég skellti því súkkulaði á þær og skreytti annarsvegar með kókósflögum og frostþurrkuðum hindberjum (sem eru vissulega ekki ketó en ég notaði svo lítið að það telst varla sem kolvetni) og annarsvegar möndluflögum og gylltu glimmeri.


Innihald:

3 eggjahvítur (við stofuhita)

1 bolli möndlur (án hýðis)

1 bolli gervi flórsykur*

1/4 bolli gervi strásykur

1/4 bolli ósætt kakó

klípa af salti


*Ath ef þið eigið ekki til gervi flórsykur eða eruð í vandræðum með að finna það í verslunum, þá er hægt að setja strásykurinn í matvinnsluvél og vinna hann þar til hann verður að flórsykri.

Stífþeytið eggjahvítur með klípu af salti, á meðan eggjahvíturnar eru þeyttar er strásykrinum bætt út í hægt og rólega. Í matvinnsluvél eru möndlurnar muldar eins fínt og mögulegt er svo er flórsykrinum blandað útí. Sigtið svo blönduna vel svo engir stórir möndlubitar blandist við eggjahvíturnar, blandið saman varlega með sleif. Sprautið deiginu á bökunarpappír, ég keypti sérstaka sílikon mottu á ebay til að einfalda að móta botnana en það er líka hægt að gera það fríhendis á bökunarpappír. Bakið í 17 mín á 150 gráðum. Leyfið að kökunum að kólna alveg áður en þeir eru teknir af bökunarpappírnum.


Bræðið 50 gr af 85% dökku súkkulaði, notið skeið til að skvetta súkkulaðinu yfir og setjið möndlur, frostþurrkuð hindber eða annað ofan á.


1,085 views0 comments

Recent Posts

See All