• Kolfinna Kristínardóttir

Makkarónur


Ég er á fullu að undirbúa nafnaveislu fyrir son minn og ákvað að baka franskar makkarónur til að skreyta "skírnarkökuna" með og hafa á ávaxta- og ostabökkum. Ég gerði bæði venjulegar og ketó. Það er soldið tæknilegt að ná makkarónunum "fullkomnum", en ég horfði á sirka 10 myndbönd um hvernig væri best að gera þær og heppnaðist bara nokkuð vel í fyrstu tilraun. Ég penslaði botnana með gylltu glimmeri eftir að þeir voru bakaðir en það sést kannski ekki alveg nógu vel á myndunum.


Innihald - botnarnir:

3 eggjahvítur - við stofuhita!!

1 bolli möndlur (án hýðis)

1 bolli gervi flórsykur*

1/4 bolli gervi strásykur

klípa af salti


*Ath ef þið eigið ekki til gervi flórsykur eða eruð í vandræðum með að finna það í verslunum, þá er hægt að setja strásykurinn í matvinnsluvél og vinna hann þar til hann verður að flórsykri.


Stífþeytið eggjahvítur með klípu af salti, á meðan eggjahvíturnar eru þeyttar er strásykrinum bætt út í hægt og rólega. Í matvinnsluvél eru möndlurnar muldar eins fínt og mögulegt er svo er flórsykrinum blandað útí. Sigtið svo blönduna vel svo engir stórir möndlubitar blandist við eggjahvíturnar, blandið saman varlega með sleif. Sprautið deiginu á bökunarpappír, ég keypti sérstaka sílikon mottu á ebay til að einfalda að móta botnana en það er líka hægt að gera það fríhendis á bökunarpappír. Það er mikilvægt að taka plötuna með botunum og berja henni laust í borð til að fá loftbólurnar úr kökunum, þetta er víst mjög mikilvægt svo þær lyfti sér rétt! Látið svo plötuna standa við stofuhita í 30-60 mín áður en hún fer í ofninn, það á að myndast "filma" yfir kökurnar þannig hægt sé að strjúka yfir þær án þess að klístrast. Bakist í 17 mín á 150 gráðum. Leyfið að kólna alveg áður en þið takið af bökunarpappírnum, ef þær eru klístraðar við pappírinn þarf að baka aðeins lengur.


Innihald - smjörkrem:

Það er hægt að leika sér með allsskyns útfærslur af kremi til að setja á milli. Til dæmis söru kremið. Ég gerði hefbundið súkkulaði smjörkrem.


100 gr smjör

1 dl gervi flórsykur

2-3 matskeiðar hreint kakó

3 matskeiðar sterkt kaffi (kalt)

klípa af salti


Þeyta smjörið mjög vel, blanda flórsykrinum hægt og rólega út í. Svo kakóinu, saltinu og seinast kaffinu. Sprautið kreminu á milli tveggja botna.531 views0 comments

Recent Posts

See All